Find a Doctor
 
Hvers getur þú vænst
FDA approved

Hvers getur þú vænst


01: Er AspireAssist rétta aðferðin fyrir mig?

AspireAssist er ætlað fyrir fullorðna einstaklinga með líkamsþyngdarstuðul á milli 35-55 sem ekki hefur tekist að léttast eða að viðhalda þyngdartapi með breyttu mataræði og líkamsrækt. Ræddu við lækninn þinn um kosti og galla meðferðarinnar til að sjá hvort hún henti þér. Hér að neðan eru nokkur atriði sem þú þarft að íhuga vandlega.

ÞÚ VERÐUR AÐ GETA KÚVENT LÍFSSTÍL ÞÍNUM

Matarvenjur eru nátengdar tilfinningum og umhverfi. Til að meðferðin komi þér að notum er eins líklegt að þú þurfir að takast á við fjölmarga þætti í þínu lífi. Sem betur fer þarftu ekki að gera það án hjálpar og hægt er að nálgast aðstoð af ýmsu tagi. Hér má nefna lífsstílsráðgjöf og stuðningshópa sem suma hverja er að finna á samfélagsmiðlum. Þátttaka í framangreindu og opið viðhorf fyrir samvinnu við heilbrigðisstarfsfólk eykur líkurnar á að þú náir betri tökum á lífi þínu. Þeir sjúklingar, sem hafa náð bestum árangri, eiga það sameiginlegt að þeir læra að neyta hollrar fæðu og snæða minni skammta. Auk þess hefja þeir líkamsrækt strax í upphafi meðferðar.

ÞAÐ TEKUR TÍMA AÐ TÆMA

Það tekur 5-10 mínútur að tæma þegar þú hefur náð tökum á verkinu og hefur lært að tyggja matinn vel. Í upphafi skaltu þó gera ráð fyrir lengri tíma í tæminguna og muna að skipuleggja daginn vel. Það er í lagi að sleppa einstaka tæmingu. Best vegnar þeim sjúklingum sem í upphafi meðferðar tæma þrisvar á dag.

ÞÚ VERÐUR AÐ TYGGJA VEL

Ef tæmingin á að ganga vel verður þú að tyggja hvern matarbita mjög vel. Stórir matarbitar komast ekki í gegnum slönguna. Breyttur lífsstíll útheimtir staðfestu. Hver máltíð tekur lengri tíma ef þú tyggur vandlega. Ef þú tekur tíma í máltíðina finnur þú betur hvenær er komið nóg. Sjúklingar sem hafa náð góðum árangri segja að þetta skipti öllu í baráttunni við aukakílóin og stóra matarskammta.

HUGSAÐU UM STUÐNINGSNETIÐ

Það er mikilvægt að þú fáir aðstoð frá fjölskyldu og nánustu vinum. Þetta fólk hefur mikil áhrif á það sem þú gerir. Það getur stutt þig í þeirri viðleitni að verða virkari og borða hollari mat og gefið þér tíma frá amstri dagsins til að tæma.

GEFÐU ÞÉR TÍMA TIL AÐ JAFNA ÞIG EFTIR AÐGERÐINA

Yfirleitt tekur skemmri tíma að jafna sig eftir svona aðgerð en aðrar offituaðgerðir. Flestir sjúklingar fara heim sama dag, en einstaka sjúklingar upplifa töluverða verki fyrstu 2-3 dagana. Yfirleitt er auðvelt að meðhöndla þessa verki með lyfjum, en þú þarft að taka nokkurra daga frí frá vinnu og öðrum skylduverkum til að jafna þig.

ÞÚ ÞARFT AÐ FARA REGLULEGA TIL LÆKNIS EÐA HJÚKRUNARFRÆÐINGS

Læknirinn mun biðja þig að mæta í reglulegt eftirlit. Fyrsta árið er gert ráð fyrir  eftirliti á fjögurra til átta vikna fresti en sjaldnar eftir það. Nauðsynlegt er að fylgjast með framvindu meðferðarinnar – taka blóðprufur þar sem m.a. er fylgst með saltbúskap líkamans. Auk þess er mikilvægt að fylgjast með húðinni umhverfis hnappinn. Eftirlitið skiptir öllu fyrir öryggi þitt. Þú verður að gefa þér tíma frá fjölskyldu og vinnu til að mæta í eftirlit.

 

02: Venjulegur, heilbrigður lífsstíll

Það þarf ekki að vera leiðinlegt að léttast. Þú getur skroppið út með góðum vinum á veitingastað, drukkið vínglas með matnum eða snætt góða máltíð heima með fjölskyldunni. Magaslangan setur þér engar skorður í þessu efni en minnt er á að hófsemi er dyggð – og mikilvægur þáttur í meðferðinni. Þegar þú byrjar að léttast muntu smátt og smátt tileinka þér heilbrigðara líferni sem hentar þér betur.

Magaslangan er hjálpartæki á vegferð þinni til betra lífs, en þú verður að tileinka þér breyttan lífsstíl og hugarfar til að ná settu marki. Svo meðferð með AspireAssist nái tilætluðum árangri er nauðsynlegt að þú tæmir reglulega eftir flestar stórar máltíðir. Tæming verður einfaldlega hluti af daglegu lífi þeirra sem ná mestum árangri. Lykillinn að auðveldari tæmingu felst m.a. í því að þú lærir að tyggja matinn vel og drekkir mikið vatn.
Sjúklingar verða hvattir til – og þeim kennt – heilbrigðara líferni hjá fagfólki. Skjótur árangur á viktinni hvetur líka til þess að sveigt sé frá óhollu mataræði og óheppilegum lífsmáta. Auk annars getur magaslangan minnkað stress og ónot sem tengist máltíðum, sem síðan leiðir til aukins sjálfstrausts þegar kemur að hollum mat og heilbrigðara mataræði.

03: Hvers mátt þú vænta eftir aðgerðina

Leiðin að færri kílóum er misjöfn á milli einstaklinga. Þessi kafli gefur þér almenna hugmynd um hvers þú mátt vænta í upphafi og þegar líður á meðferðina.

BATAFERLIÐ (FYRSTU 1-3 DAGARNIR EFTIR AÐGERÐINA)

Þú hefur lagt af stað í ferðalag, sem kemur til með að breyta lífi þínu á jákvæðan hátt og þú vilt án efa byrja strax! Fyrst verður þú þó að jafna þig eftir aðgerðina. Stómað (gangurinn þar sem slangan tengir á milli magans og húðarinnar) þarf 1-2 vikur til að gróa og jafna sig á svipaðan hátt og þegar húðin grær þegar gat er gert í eyrnarsnepilinn. Flestir sjúklingar geta farið heim nokkrum tímum eftir aðgerðina og þeir fá lyfseðil fyrir verkjalyf. Fyrstu dagana getur þú upplifað einhverja verki eða ónot, en verkjalyfin ættu að duga til að gera líðanina bærilega. Sjúklingar geta venjulega farið í sturtu tveimur dögum eftir aðgerðina, en læknirinn mun gefa þér leiðbeiningar sem eru sniðnar að þínum þörfum. Þú færð jafnframt upplýsingar um hvernig þú átt að sinna stómanu.

SÁRIÐ GRÆR (DAGUR 3-7)

Sjúklingar geta yfirleitt snúið til fyrri starfa innan nokkurra daga, en þó er líklegt að þú finnir fyrir einhverjum óþægindum í kviðarholi eða kviðvegg á meðan sárið grær. Þú þarft að passa vel upp á húðina við slönguna og taka þau lyf eins og þér var ráðlagt. Í lok þessa tíma ætti stómað að vera gróið og þú getur farið í bað og stundað léttari æfingar.  Þú tekur alla fylgihluti AspireAssist kerfisins með þér heim og æfir þig í að tengja saman – en byrjar ekki að tæma magann fyrr en viku síðar.

SKIN-PORT ER TENGT (DAGUR 10-14)

Þegar 10 til 14 dagar eru liðnir frá aðgerðinni kemur þú á stofu til læknisins til að fá magahnappinn tengdan við magaslönguna. Hnappurinn er við yfirborð húðarinnar. Þetta tekur nokkrar mínútur og er sársaukalaust. Þegar búið er að tengja getur þú byrjað að nota búnaðinn. Starfsfólk okkar mun sýna þér hvernig þú átt að nota magaslönguna á réttan hátt. Þú þarft að læra hvernig og hvenær þú átt að tæma á sem skynsamlegastan hátt. Þetta er jafnframt góður tími til að hefja breytingar á daglegu lífi. Að sjálfsögðu er hér átt við matarvenjur og hreyfingu.

Í þessari heimsókn færðu AspireAssist byrjunarpakkann en í honum er lítið tæki í lófastærð sem þú notar við tæmingu. Auk tækisins eru í pakkanum nokkrir aukahlutir sem við útskýrum fyrir þér og lítið hulstur sem passar utan um tækið. Hulstrið er fyrirferðarlítið og auðvelt að setja það í handtösku. Vendu þig á að hafa þetta alltaf með í för svo þú getir ávalt tæmt eftir máltíð.

04: Hverju getur þú búist við fyrsta árið

FYRSTI MÁNUÐURINN

Fyrsta mánuðinn léttast margir sjúklingar hratt! Markmiðið er að léttast um hálft til eitt kíló á viku, en fyrstu vikurnar léttast margir eitthvað meira. Reynslan er misjöfn á milli sjúklinga og það getur tekið tíma að venjast tækinu og læra að tæma. Í lok fyrsta mánaðarins er líklegt að þrekið aukist og heilsan batni. Þá kemur líka að því að gömlu fötin séu orðin of víð!

Læknirinn þinn mun fylgjast með því að megrunin gangi vel og að þú hugsir vel um þig. Flestir sjúklingar koma í eftirlit til læknisins nokkrum vikum eftir að þeir byrja að nota magaslönguna. Í þessari heimsókn getur verið að hægt sé að stytta magaslönguna eitthvað til að koma á móts við þyngdartapið.

Þegar hér er komið í sögu er er gott að ganga í stuðningshóp þar sem aðrir sjúklingar tala um reynslu sína af magaslöngunni. Þessir hópar eru mjög góð leið til að fá hvatningu frá öðrum og læra af reynslu þeirra til að halda réttri stefnu á þessu ferðalagi!

OG ÞÚ SÉRÐ MEIRI ÁRANGUR (MÁNUÐUR 2-6)

Þyngdartapið heldur áfram ef þú tæmir reglulega! Þú ættir nú að vera farin(n) að tæma hraðar og betur. Þú ættir líka að vera búin(n) að finna út hvar og hvenær þér hentar best að tæma – 2-3 sinnum á dag eftir hverja máltíð. Það er mikilvægt að þú haldir ennþá góðu sambandi við starfsfólk okkar, sem fylgist þá með að allt gangi vel. Sjúklingar koma venjulega einu sinni í mánuði í eftirlit. Þá verða af og til teknar blóðprufur til að tryggja að saltbúskapur líkamans og önnur gildi séu í góðu lagi. Eins er fylgst með því hvort stytta þurfi magaslönguna. Eftir sex mánuði hafa þeir sjúklingar sem tæma reglulega misst um 40% af yfirþyngd sinni. Í samræmi við þessar geysimiklu þyngdarbreytingar byrja margir sjúklingar á heilbrigðara líferni. Með aðstoð Lifestyle Modification Program lærir þú mikilvægi rétts mataræðis og eykur hreyfingu og líkamsrækt smátt og smátt. Á þessum tíma muntu líklega fara að nota föt sem eru 1-2 númerum minni en þú áttir að venjast. Verðlaunaðu sjálfa(n) þig fyrir gott verk með því að fjárfesta í nýjum fötum!

EINBEITTU ÞÉR AÐ JÁKVÆÐUM BREYTINGUM (MÁNUÐUR 6-12)

Margir sjúklingar halda áfram að léttast eftir fyrsta hálfa árið en það dregur úr hraða þyngdartapsins. Eftir því sem þú léttist verður þú að draga úr fjölda hitaeininga til að halda áfram að léttast. Nú er enn mikilvægara en áður að tæma reglulega og sjúklingar verða að halda áfram að breyta lífsháttum sínum í áttina að heilbrigðara lífi. Færri kíló gera það auðveldara en áður að stunda líkamsrækt. Lífsstílsráðgjöf getur gefið þér margar góðar hugmyndir um hvernig hægt er að bæta mataræðið.

Þó svo að læknirinn fylgist enn með framþróun mála hjá þér líður nú lengri tími á milli heimsókna. Nú þarf heldur ekki að stytta magaslönguna jafn oft. Margir sjúklingar ná settum þyngdarmarkmiðum í lok fyrsta ársins með því að tæma reglulega og breyta lífsstílnum til hins betra.

05: Að halda viktinni

HALTU ÁRANGRINUM STÖÐUGUM (ÁR 1 OG ÞAR EFTIR)

Þegar þú hefur náð settum þyngdarmarkmiðum verður þú að einbeita þér að því að halda þyngdinni stöðugri! Eftir eins árs meðferð komast margir sjúklingar að því að þeir borða hollari mat en nokkru sinni. Skammtastærðirnar eru minni og þeir velja hollan og næringarríkan mat – og þeir halda nartinu í skefjun. Með breyttum matarvenjum eru margir sjúklingar sem ná að halda þyngdinni með færri tæmingum – einu sinni á dag eða sjaldnar. Aðrir sjúklingar þyngjast aftur ef þeir fækka tæmingunum. Þú og læknirinn þinn getið í sameiningu komist að því hvað hentar þér best.

Þó heimsóknum til læknis fækki eftir fyrsta árið mun annað starfsfólk okkar halda áfram að fylgjast með þér. Þegar árið er liðið getur skipt þig miklu máli að halda sambandi við fólk í stuðningshópnum þínum. Félagar þínir geta hjálpað þér að missa ekki einbeitinguna í baráttunni við aukakílóin.

AÐ FJARLÆGJA ASPIREASSIST

Sumir sjúklingar vilja láta fjarlægja magaslönguna þegar markmiðinu er náð. Ef þú hefur gjörbreytt lífsstílnum getur þetta verið raunhæft án þess að eiga það á hættu að þú þyngist aftur. Við mælum með því að þeir sjúklingar, sem vilja sjá á bak magaslöngunni, hætti að tæma í 2-3 mánuði áður en þeir láta fjarlægja hana. Á þessum tíma sést hvort þeir geti haldið nýrri líkamstþyngd. Margir sjúklingar velja að halda magaslöngunni til að tryggja að þeir geti haldið þyngdinni.

06: Algengar spurningar

S: Borða sjúklingar meira til að vega upp á móti þeim hitaeiningum sem eru tæmdar út?

Rannsóknir okkar hafa ekki sýnt að sjúklingar noti magaslönguna sem afsökun til að borða meira, eða að þeir borði meira til að bæta fyrir þær hitaeiningar sem eru tæmdar út. Niðurstöðurnar hafa þvert á móti sýnt að sjúklingar sýni betri sjálfsstjórn og átröskun hefur ekki verið vandamál. Þessar niðurstöður sýna að margir sjúklingar í yfirþyngd borði of mikið af hitaeiningum vegna umhverifsáhrifa (stress, félagsleg starfsemi, áhugamál osfrv.), en ekki vegna boða frá líkamanum um að borða ákveðið magn hitaeininga á dag.

S: Þarf að nota magaslönguna til frambúðar?

Samhliða AspireAssist er mælt með lífstílsráðgjöf þannig að sjúklingar taki upp hollari matarvenjur og líkamsrækt á sama tíma og þeir léttast. Sjúklingar sem breyta lífsstíl sínum nægilega mikið geta fjarlægt slönguna án þess að þyngjast aftur. Rannsóknir okkar sýna að flestir sjúklingar sem velja þessa meðferð ákveða að halda slöngunni til að tryggja langtímaárangur. Ef magaslangan er nauðsynleg til að viðhalda lægri þyngd eru miklar líkur á að sjúklingurinn þyngist ef tækið er fjarlægt.

S: Er hætta á næringarskorti?

Tæmingarnar fjarlægja einungis þriðjung af innbyrtum hitaeiningum og allir hlutar máltíðarinnar eru fjarlægðir. Þetta líkist því að fækka hitaeiningum með minni skammtastærðum án þess að taka ákveðin næringarefni í burtu og hættan á næringarskorti er því lítil. Jafnframt fylgjumst við grannt með sjúklingunum með tilliti til næringarefna og salta og til að tryggja að þyngdartapið gerist ekki of hratt.

S: Af hverju er einungis 30% af hitaeiningunum fjarlægt?

Eftir ”heila” tæmingu (þegar enginn matur tæmist lengur út) eru um það bil 70% hitaeininganna eftir í maga eða smágirni. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður: 1) ákveðinn hluti máltíðarinnar hefur þá þegar farið niður í smágirnið, 2) slangan liggur oftast upp í efri hluta magans, þannig að sá matur sem er í neðri hlutanum tæmist ekki út, 3) ákveðið hlutfall matarins kemst ekki í gegnum slönguna. Rannsóknir okkar hafa sýnt að þeir sjúklingar sem reyna að tæma alla máltíðina tekst að meðaltali að fjarlægja um 30% af hitaeiningunum.

S: Eru sýkingar algengar?

Við höfum ekki séð neinar alvarlegar sýkingar. Minniháttar sýkingar geta myndast og hafa þær verið meðhöndlaðar með sýklalyfjum. Á sama hátt og þegar um er að ræða PEG-slöngur grær húðin umhverfis slönguna, sem minnkar líkurnar á sýkingum. Sjúklingum er kennt að fylgjast reglulega með húðgatinu með tilliti til roða og bólgu og að hafa samband við lækninn sinn ef þeir sjá eitthvað óeðlilegt.

S: Hver er munurinn á AspireAssist og átröskun?

Átröskun er sálrænn sjúkdómur sem einkennist af tímabilum með óstjórnlegu og yfirgengilegu ofáti sem lýkur með framkölluðum uppköstum. Átröskun er ekki undir eftirliti heilbrigðisstarfsfólks á meðan notkun magaslöngunnar er fylgt vel eftir af lækni og hjúkrunarfræðingi, sem meðal annars fylgjast náið með blóðprufum og þyngdarbreytingum. Magaslangan veldur ekki átröskun. Vel heppnuð tæming krefst þess að maturinn sé mjög vel tugginn og þar með tekur máltíðin lengri tíma. Þessi leið er í beinni andstöðu við eftirlitslausa átröskun. Eitt helsta vandamálið við átröskun eru skemmdir á tönnum og vélinda af völdum magasýru. Magaslangan veldur ekki slíkum skaða.

Sjúklingar sem hafa áhuga á að fá magaslöngu eru beðnir um að svara spurningum varðandi átröskun og aðra sálræna sjúkdóma. Á þann hátt er reynt að finna þá einstaklinga sem henta ekki fyrir þessa tegund meðferðar.

S: Geta sjúklingar stundað algenga líkamsrækt og sund með AspireAssist?

Já, þegar húðin umhverfis slönguna er gróin nokkrum vikum eftir aðgerðina getur fólk með magaslöngu synt, stundað líkamsrækt og tekið þátt í öllum almennum tómstundum.

S: Hvenær er hægt að byrja meðferð með AspireAssist?

AspireAssist hefur fengið öll tilskilin leyfi í Bandaríkjunum (FDA) og er jafnframt með leyfi í Evrópu, Ástralíu, Nýja Sjálandi og nokkrum öðrum löndum. Ýttu hér til að sjá hvort hægt sé að fá meðferð með AspireAssist í þínu landi.

S: Ég hef þegar farið í offituaðgerð. Get ég notað AspireAssist?

Það fer eftir því hvers konar aðgerð var gerð hjá þér og öðrum heilsufarsþáttum. Hafðu samband við þann lækni sem veitir meðferð á þínu svæði. Almennt er hægt að segja að ef þú hefur farið í óafturkræfa aðgerð eins og magahjáveitu (gastric bypass) eða magaermi (sleeve gastrectomy) getur þú ekki notað AspireAssist. Ef þú hefur fengið magaband áður getur þú hugsanlega notað AspireAssist, en ættir að hafa samband við lækni til að ræða málið.

07: Reynslusögur

Sjáðu hvað notendur AspireAssist hafa að segja um þyngdartap sitt og hvernig þeir náðu árangri með magaslöngunni!